Fyrsti fermingarhópur

Fermingaræða flutt í Ólafsfjarðarkirkju

Fermingabörn vorið 1959

Hvítasunnudagur 17. Maí 1959

Heyrum guðs orð sem tilheyrir þessum degi og skrifað stendur í Postulasögum 2. Kapitula 36-42 versi og hljóðar svo í Jesú nafni.

Post.2. 36:42

Hvítasunnudag höldum vér kristnir menn hátíðlegan, af því að hann er stofndagur kristinnar kirkju.

Fyrir rúmum 19 öldum varð sá atburður á hvítasunnu, að Kristin kirkja varð til.

Oss er því ídag gefið sérstakt tilefni til að ræða og hugleiða kirkjuna.

Menn bæði ræða og hugleiða kirkjuna talsvert mikið um þessar mundir. 

Menn ræða um hlutverk hennar í þjóðlífinu.

Menn ræða um gildi hennar sem uppeldisstofnunnar í siðferðilegum efnum einkum fyrir æskuna.

Menn tala um völd hennar og áhrif og valda og áhrifaleysi hennar.

Menn ræða skipulagmál hennar og forystu og menn ræða um ólikar skoðanir innan hennar og hin kirkjupólitisku átök og þannig mætti lengi telja.

En í dag ætlum vér ekki að ræða þetta.

Af tilefninu er oss gefið að ræða um hvað kirkjan er samkvæmt eðli sínu, hvað henni er ætlað að vera af höfundi hennar.

Sú freisting er sterk í vorum aðstæðum, að skilja og skilgreina kirkjuhugtakið út frá hinu almenna félagshugtaki.

Vér stofnum og starfrækjum félög um ákveðin fyrirtæki sem vér viljum hrynda í framkvæmd með sameiginlegum átökum. Vér setjum því lög og veljum því forystu sem vér viljum lúta. Vér myndum einnig félög á grundvelli sameiginlegra skoðana. En Kristin kirkja er ekkert af þessu. Hinn kristni söfnuður er ekki félag sem vér stofnum og setjum lög eða grundvöll eftir eigin geðþótta eða veljum forystu.

Kristinn söfnuður er ekki heldur félagssamtök, sem menn hafa myndað með sér á grundvelli sameiginlegra skoðanna hugsjóna eins og bræðralagshugsjónar jafnréttis og umburðarlyndis eða hugsjónar kærleikans. Kristin kirkja er ekki klúbbur. Kristin kirkja er sköpun Guðs. – þess vegna er hún nefnd kirkja Guðs í heilagri ritningu.

Á leið á fermingarbarnamót að Laugum í Þingeyjarsyslu

Þetta verður ljóst, ef vér virðum fyrir oss frá sögu ritningarinnar af atburðum hins fyrsta hvítasunnudags.

Fyrir kraft Guðs anda og boðskapinn um kærleika Guðs til mannanna í Jesú Kristi af vörum Postulanna talaði Guð til hinna mörgu, sem í Jerúsalem voru saman komnir, svo að þeir stungust í hjörtun. Þann dag er sagt að um 3000 manns hafi tekið trú og látið skírast. Síðan er sagt að þeir hafi haldið sér stöðugt við kenningu postulanna, samfélagið, brotningu brauðsins og bænirnar.

Þeir sem þannig urðu frumkirkjan voru ekki men sem kjöru sig till þess sjálfir á grundvelli egin ágætis eða álits meðal samtíðarmanna sinna. Í orðum postulans Péturs felst óskapleg ásökun í garð þessa fólks er hann segir: med óbregðanlegri vissu viti þá allt Israels hús, að Guð hefur gert hann bæði að Drottni og að Kristi, þennan Jesús, sem þér krossfestuð -

Í frumsöfnuðinum rekumst vér á ríka og fátæka hlið við hlið, stórættaða og lítillar ættar, bersynduga og flekklausa, misindismenn og góðmenni.

Í fyrra bréfi sínu til safnaðar í Korintu segir Páll postuli: “Þér eruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir heldur hefur Guð útvalið það sem heimurinn telur heimsku, til þess að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur valið það sem heimurinn telur veikleika, til þess að gjöra hinu volduga kinnroða. Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið…honum er það að þakka hvað þér eruð orðnir fyrir samfélagið við Krist Jesúm."

Fyrir orð sitt sannfærir Guð oss um synd vora og fyrir orð sitt boðar hann oss fyrirgefningu og sátt við sig. En fyrir trúna á þetta orð, sem er fagnaðarerindið um Jesúm Krist er oss gefið samfélag við hinn lifandi Guð.

Fyrir utan héraðsskólan að Laugum

Það hefur verið bent á, að í hinu kristna safnaðarhugtaki felist tvö eðliseinkenni.

  • Annars vegar er kall Guðs til samfélags við sig, það er, Guðs orð.
  • Hins vegar er svar þeirra sem kallaðir eru til samfélagsins þar sem þeir ganga til hlýðni við kallið, m.ö.o. trú.

Hvorugt getur án hins verið í kristinni kirkju: Trúin kemur af boðun fagnaðarerindisins, en á móti því er tekið í trú.

Þegar Guðs orð hljómar og maðurinn svarar því í trú, verður kristinn söfnuður áþreifanlegur.

Guðs orð hljómar til vor í fagnaðarerindinu, hvort heldur það er í mynd skirnarinnar þar sem Guð kemur til vor og kallar oss til samfélags við sig á áþreifanlegan hátt, gerir við oss náðarsáttmála eða það hljómar af predikunarstóli og frá altari í guðspjöllum og pistlum og heilagri kvöldmáltið eða það hljómar fyrir munn einstaklinganna í barnafræðslunni í sérstökum samverustundum litilla hópa, á heimilunum eða úti í hinu daglega lífi.

Héraðsskólinn að Laugum

Maðurinn tekur á móti orðinu í trú, trú hans birstist í því, að hann hlustar gjarnan á Guðs orð, biður til Guðs, lofsyngur Guði og þakkar honum.

En um leið og Guð kallar oss mennina til samfélags við sig og vér göngum til þessa samfélags, þá erum vér kölluð saman um hið sama, m.ö.o. til samfélags hverir við aðra. Söfnuðurinn er ekki sundurdreifður hópur einstaklinga, hann er samfélag.  Þetta kemur skirt fram í orðunum, sem vittnað var í hér að framan, þar sem segir um hinn fyrsta kristna söfnuð:

“Þeir héldu sér stöðuglega við kenningu postulanna, samfélagið og brotningu brauðsins og bænirnar.”

Þetta einkenni kristins safnaðar kemur einna skirast fram í heilagri kvöldmáltið.

En söfnuðurinn er meira. Um leið og hann er þannig nýsköpun Guðs í föllnum heimi, þá er hann hjálrræðisstofnun, sem Guð ætlar öllum mönnum að eignast tilveru í.

Kristin kirkja er hópur þeirra manna sem Guð kallar út úr heimi, sem er honum óhlýðin og jafnvel fjandsamlegur. Þennan hinn sama söfnuð gerir Guð að samstarfsmönnum að hjálpræðisáætlun sinni til handa mönnunum.

Til lærisveinanna hljómar þessi skipun: "Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinunum með því að skira þá til nafns föðurins sonarins og hins heilaga anda og með því að kenna þeim að halda allt sem ég hefi boðið yður."   

Vér sem hér erum saman komin í kirkjunni í dag námum kall Guðs til vor í heilagri skírn og í hinni kristilegu barnafræðslu sem vér hlutum fyrst og fremst í heimahúsum og vér svöruðum því kalli með trú, með því að hlusta á það, sem Guð vildi við oss tala og með því að taka við þeirri náð sem hann vildi gefa oss.

Og hann gerði oss að samverkamönnum sínum að útbreiðslu fagnaðarerindisins, eflingu kirkju sinnar, er hann gaf oss börn vor til forsjár.

Er vér færðum þau Guði í heilagri skirn og kenndum þeim að biðja vorn himneska föður gerðumst vér slíkir samverkamenn.

Í beinu framhaldi af því er kristindómsfræðsla skólanna og fermingarundirbúningurinn, en lengst mun barnið búa að fyrstu gerð við móður brjóst og föður hné.

Og í þessu öllu höfum vér leitast við að hlyða boði Drottins til lærisveinanna.

Oss hefur verið falið ábyrgðarmikið hlutverk og á stundu sem þessari er oss gefið tilefin til að prófa oss sjálf frammi fyrir Guði vorum og spyrja: Höfum vér rækt þessa skyldu vora? Vér finnum að vér erum ónýtir þjónar og að vér hefðum getað gert mikið betur.

Mynni Ólafsfjarðar

Vér spurðum hvað er kirkjan?

Oss var svarað af pistli dagsins, sem vér lásum í upphafi, en oss er einnig svarað þessari spurningu með sérstökum hætti hér í kirkjunni í dag. Hér birtist oss kirkja Krists á jörðunni áþreyfanleg og sýnileg.

Kæru fermingarbörn í heilagri skirn, við móður brjóst og föður hné hljómaði kall Guðs til ykkar og þið svöruðu því full trúnaðartrausts í bænum ykkar. Þá urðuð þið ásamt foreldrum ykkar kristin kirkja.

Æ síðan hefur kall Guðs hljómað til ykkar og þið hafið verið leidd til fyllri þekkingar á Guði föður vorum og dýpri skilning á samfélaginu við hann.

Stund ykkar hér í kirkjunni í dag er undirstrikun svars ykkar við kalli Guðs. Fermingin er já ykkar við þessu kalli. Hún er staðfesting af ykkar hálfu um að þið viljið hafa Jesum Krist að Drottni ykkar og leiðtoga, yfirlysing um að þið viljið tilheyra hans kirkju og þannig halda fast við trú feðra ykkar.

En fermingin er meira, hún er undirstrikun á jái Guðs. Í henni felst undirstrikun á það fyrirheiti, sem Guð gaf ykkur í heilagri skirn, er hann hét að vera ykkur Drottinn.

Það er ekki svo, að ykkur sé ætlað í eigin mætti að feta þann veg sem þið hafið tekið að ganga í trúnni á Jesum. Sá, sem reynir það, er dæmdur til að biða ósigur í þeirri baráttu sem í því felst. – Guð vill vera oss Drottinn, það þyðir, hann vill hjálpa oss, svo framarlega sem vér leyfum honum að gera það. 

Þið sem nú í viðurvist Kristins safnaðar játið trúna á þann drottin, sem þið voruð skirð til, öðlist nú aðgang að öllu því sem Guð vill gefa oss mönnum í kirkju sinni.

– Þið hafið lokið stuttum undirbúningstíma á langri leið. Framundan er óviss vegferð, þar sem þið í æ ríkari mæli gerizt ábyrg fyrir lifi ykkar og gjörðum. Og um leið takið þið að kynnast umheimininum, fegurð hans og unaði, en einnig spillingju hans og sorta, vonbrigðum og sársauka. Vegirnir um viðáttur mannlifsins eru margir og liggja í margar áttir og það er villugjarnt á þeim.

En þið hafið frá barnæsku tekið að feta veginn, sem liggur till lífsins í eiginlegri merkingu þess orðs, lifsins, sem Guð einn gefur og felst í því að lifa í fullri sátt við hann. Ávöxtur þess er líf, sem hrærist í fullkomnu samræmi við sköpunina. Þennan ávöxt, þetta líf, nefnum vér öðru nafni lifshamingjuna. Allir vilja vera hamingjusamir, en það eru ekki allir sem gera sér ljóst að lifshamingjan er einmitt fólgin í samfélaginu við hinn lifandi Guð. Þess vegna eru það svo margir, sem hverfa af veginum sem þeir höfðu aðgang að í bernsku og æsku. Hvarvetna á vegferð vorri um lifið rekumst vér á vegamót, þar sem visað er í ýmsar áttir til lifshamingjunnar.

En farið ekki eftir þeim. Það er aðeins ein leið, sem liggur till lífsins og lífshamingjunnar í dýpstum skilningi og það er Jesús Kristur. Hann er vegurinn til lífsins. Í trúnni á hann í samfélaginu við hann eigum vér frið við skaparann og sköpun hans.

Enginn skilji orð min svo, að lifið í trúnni á Guð sé árekstra- og átakalaust. Því fer fjarri. Friðurinn við Guð og sköpun hans verður ekki varðveittur nema í stöðugri baráttu við hið illa í lifinu. Og sú barátta getur oft verið hörð og sársaukafull, en hún rænir menn ekki lifshamingjunni ef menn standa Guðs megin í þeim átökum. Til þess vill vor himneski faðir hjálpa oss öllum, einnig ykkur kæru fermingarbörn.

Í kirkju hans eigið þið þetta fernt, sem ég minntist á hér að framan, hina postullegu kenningju eða Guðs ord eins og það er að finna í hinni heilögu ritningu, samfélag þeirra sem trúa, altarissakarmentið og bænina. Allt eru þetta gjafir Guðs kirkju hans til handa og án þeirra verslast hún upp og deyr. - 

Ef þið viljið varðveita það líf sem þið nú játið, þá haldið fast við þetta fernt að hætti hinna fyrstu kristnu: kenningu postulanna, samfélagið og brotningu brauðsins og bænirnar. Þá munuð þið reyna að Guð stendur við öll sin fyrirheiti.

Guð blessi ykkur og oss öllum þennan dag og ókomin ár.

Gleðilega hátíð í Jesú nafni.

                                            Amen

 

(Altarisganga fermingarbarna n.k. föstudagskvöld í kirkjunni klukkan níu).